Friday, April 4, 2008

Fréttablaðið, 29. mar. 2008 05:00

Syngur íslensk lög á ensku

Vísir.is birtir:
Tónlistarmaðurinn Biggi Gunn, sem hefur verið búsettur í Kaliforníu í 25 ár, hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu, sem nefnist I Was Younger Then. Á plötunni syngur Biggi mestmegnis þekkt íslensk lög með enskum textum. Á meðal þeirra eru Lítill drengur og Bíddu pabbi, sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði ódauðleg á sínum tíma, og Skólaball með Brimkló. Í ensku þýðingunni nefnast þau einfaldlega Little Boy, Daddy Don"t You Walk so Fast og School Dance.

„Ég er búinn að vera mikið í músík og fannst íslensk músík eiga það skilið að heyrast úti um allan heim," segir Biggi, eða Birgir Bergmann Gunnarsson. „Það er svo mikið af góðri músík hérna og „talentinn" á Íslandi er með eindæmum. Þessi lög eru fjársjóður og það þarf bara að setja góðan enskan texta við þau."
ópur mætra manna aðstoðaði Bigga við gerð plötunnar, þar á meðal Vilhjálmur Guðjónsson og æskufélagi hans úr Keflavík, Magnús Kjartansson. „Þeir héldu í mér trúnni um að ég gæti þetta. Það eru ekki til betri gæjar í þessum „bisness" en þeir."

Biggi starfar sem sjúkraþjálfari í Kaliforníu en auk þess hefur hann lært óperusöng og spilað með nokkrum hljómsveitum. Ein þeirra var band með Íslendingum búsettum í Los Angeles sem skartaði syni hans, Bergi Heiðari, Önnu Mjöll, Atla Örvarssyni og Gísla „Gis" Jóhannssyni. Biggi spilar á nokkrum tónleikum hér heima áður en hann fer út aftur. Í kvöld syngur hann með Furstunum á SÁÁ-balli, 4. apríl verður hann á Vínbarnum og kvöldið eftir spilar hann aftur með Furstunum á Ásláki.

No comments: